Stollen, Lebkuchen, Schneeballen... að ekki sé minnst á Glühwein og Würst. Allt þetta virkar sem segull á íslenskan ferðalang á jólamarkaðinum Reiterlesmarkt í Rothenburg.
Myndir frá Rothenburg og jólamarkaði
Það er eins og komið sé inn í ævintýraheim að heimsækja þetta 11.000 manna þorp í jólamánuðinum. Frost og stillur, leifar af snjósköflum eftir síðasta kuldakast, fallega skreyttar götur og jólamarkaðurinn með sínum heimilislegu viðarbásum, vendilega prýddum.
Á markaðaninum skiptast á básar með alls konar jólaskrauti og jólavörum í bland við aðra þar sem hægt er að kaupa bolla af heita jólavíninu Glühwein og pylsur af ýmsum stærðum og gerðum, sumar svo langar að Íslendingurinn horfir hlægjandi á og veltir fyrir sér hvernig í veröldinni sé hægt að torga þessu. Með jólapúnsið í hendi læðist að ferðalanginum sá grunur að í það hafi verið blandað einhverju sterkara en einungis rauðvíni...
Stollen er jólabrauð, sætt gerbrauð með þurrkuðum ávöxtum og afar lystugt. Lebkuchen hins vegar litlar hringlaga smákökur sem verður einfaldlega að smakka til að átta sig á þeim. Og snjóboltarnir, Schneballen, þeir finnast eingöngu í Rothenburg og á nokkrum stöðum í Austurríki.
"Snjóboltarnir" eru sætar smákökur, hnoðaðar í bolta, síðan steiktar í ákveðnu formi og þaktar flórsykri, kanil eða súkkulaði. Mjög léttir og jafnvel holir að innan. Það koma varla jól í Rothenburg án þess að menn geri sig að léttu athlægi meðan þeir reyna að borða snjóboltana snyrtilega... Boltarnir blasa við í öðrum hvorum búðarglugga (sjá mynd).
Heimsókn í jólabúðina, Käthe Wohlfahrt, er nokkurn veginn skylda - en verslunin sem opin er allt árið, er löngu orðin heimsfræg. Þar er komið inn í ævintýraveröld, svo glitrandi og hlaðna að skilningarvitin hafa vart við að innbyrða herlegheitin.
Skemmtilegast er þó að lifa sig inn í löngu liðna tíð með göngutúr uppi á borgarmúrunum sem umlykja Rothenburg og horfa niður á bæinn ofan af múrnum - sem helst minnir á þá tilfinningu að fá að kíkja baksviðs í leikhúsi.
Gisting
Hótel í Rothenburg ob der Tauber og fjölbreyttir gistimöguleikar