Þegar flug er pantað í gegnum svokallaðar flugbókunarvélar, t.d. Lastminute.com, þarf að gæta að því hvers konar aukakostnaður getur bæst við, a.m.k. við vissar aðstæður. Þær rukka margar ýmis aukagjöld, t.d. með notkun kreditkorts sem vissara er að athuga fyrirfram.
Lesandi Ferðalangs hafði samband og lýsti því hvernig afturköllun á flugbókun getur kallað á þó nokkurn kostnað, jafnvel þó aðeins líði innan við klukkustund frá bókun. Ástæða er því til að gæta vel að því fyrirfram að nægur tími sé á milli flugferða ef skipta þarf um flug á leiðinni og almennt að passa að búið sé að fara vel yfir allar ferðaupplýsingar svo ekki þurfi að grípa til afbókana sem kalla á aukakostnað.