Háskólaborgin Würzburg er afskaplega notalegur áfangastaður þegar leiðin liggur um Bæjaraland í Þýskalandi. Ekki nema rétt um 130.000 íbúar og því mátulega stór fyrir Íslendinga á bílaleigubíl...
Gisting
Hótel í Würzburg og fjölbreyttir gistimöguleikar
Margir Íslendingar hafa t.d. dvalið á Mercure Hotel og Maritim Hotel í Würzburg.
Borgin er afar þægilegur upphafspunktur áður en ekið er um hina þekktu og fallegu "Rómantísku leið" - Die Romantische Strasse og ekki tekur nema 1 1/2 tíma að aka þangað frá flugvellinum við Frankfurt am Main.
Würzburg liggur á bökkum Main og státar af mjög fallegum, gömlum miðbæ, hvorki meira né minna en 40 kirkjum og ýmsum markverðum byggingum. Þrátt fyrir ótrúlega eyðileggingu í heimstyrjöldinni síðari, hefur borgin verið byggð upp aftur og ómetanlegar byggingar endurgerðar. Hægt er að skoða líkan af borginni eins og hún leit út eftir 16. mars 1945 en þá rigndi sprengjum bandamanna yfir borgina. Líkanið stendur innandyra neðst á Domstrasse við Alte Brücke.
Það er gaman að geta þess að röntgentæknin var uppgötvuð í Würzburg, af dr. Röntgen árið 1867.
Umhverfis borgina eru mikil vínræktarhéruð og vínkjallarar í borginni ófáir! Ekki bara undir híbýlum manna heldur líka undir kirkjum og ýmsum stofnunum borgarbúa.
Residenz
Ein fallegasta höll Evrópu, Residenz, stendur í Würzburg og var áður aðsetur biskupaprinsa - en það voru biskupar sem höfðu að auki mikil veraldleg völd. Fyrir áhugafólk um sögu er heimsókn í Residenz mjög skemmtileg. Það tekur um 50 mínútur með leiðsögn að fara í gegnum þau herbergi og salarkynni í höllinni sem til sýnis eru. Alls ráðandi er ótrúlega skrautlegur rokoko og síð-barokkstíll, mikið um "stucco" skreytilist og flúr. Residenz er á heimsminjaskrá UNESCO, einkum og sér í lagi fyrir mikinn og veglegan stiga í andyri hallarinnar sem hannaður var af þýska arkitektinum Baltasar Neumann.
Marienkappelle og Neumünster
Þetta eru hvor um sig afar fallegar kirkjur frá miðöldum. Marienkapelle (frá ca. 1400) stendur við aðaltorgið í Würzburg og litar það skemmtilega með sínum ljósa og rauða lit. Neumünster er rómönsk basilika frá 11. öld en með barokkframhlið, stendur rétt hjá dómkirkjunni og var upphaflega reist yfir steinkistu heilags Kilians. Í Neumünster er einnig gröf Walters von der Vogelvwide (1170-1230), eins þekktasta ljóðskálds frá miðöldum.
St. Kilian
Dómkirkjan St. Kilian í rómönskum stíl (frá 1050), er afar stór og falleg og hefur að geyma dýrgripi eftir m.a. tréskurðarmeistarann fræga frá miðöldum, Tilman Riemenschneider. Í kirkjunni er einnig stórt og mikið orgel og vel þess virði að fara á orgeltónleika þar ef þeir standa til boða. Í kirkjunni mætast margar liststefnur frá ólíkum tímum. Allt frá einföldum rómönskum stíl yfir í barokkskraut. Allir vildu hafa kirkjuna "móðins" á hverjum tíma....
Horft er frá aðalinngangi St. Kilian beint niður Domstrasse niður að ánni Main en yfir hana liggur brúin Alte Mainbrücke í framhaldi af Domstrasse, afar falleg og gömul brú (byggð 1473-1543 yfir aðra eldri brú frá 8. öld) sem hefur verið endurbyggð eftir eyðileggingu síðari heimstyrjaldarinnar. Á henni standa styttur 12 dýrlinga, raunar eftirlíkingar af upprunalegu styttunum.
Marienberg
Yfir Würzburg gnæfir virkið Marienberg, þangað er hægt að aka/ganga og skoða þau nokkur söfn sem standa þar gegn aðgangseyri eða ganga í kringum það. Fyrir þá sem hafa gaman af listum og sögu er áhugavert að fara í Mainfrankisches Museum. Það tekur um klukkustund að rölta í gegnum það ef ekki er mikið stansað og "spekúlerað". Þar stendur ótölulegur fjöldi muna og listaverka frá ýmsum tímum, s.s. sýnishorn af klæðnaði fólks, matarstellum, hnífapörum, gamlar vínpressur, listmunir eftir Tilman Riemenschneider og lærlinga hans sem og listaverk eftir marga fleiri.
Í Marienberg er fallegur tónleikasalur "Rittersaal" og upplagt að bregða sér á tónleika þar tækifæri býðst.
Ekki tekur nema 10 mínútur að ganga niður í miðbæ stystu leið frá Marienberg.
Veitingastaðir
Það eru margir góðir veitingastaðir í Würzburg. Þar má t.d. nefna Alter Kranen sem er til húsa við gamla kranann niðri við ána Main; Ristorante Duomo sem er lítill og notalegur ítalskur veitingastaður í hliðargötu út frá Schüstergasse (sem liggur út frá Domstrasse) og ef fólk vill borða á mjög fínum veitingastað og gera sér dagamun er óhætt að mæla með Nikulaushof, veitingastað sem liggur í hæðunum fyrir ofan Würzburg. Ráðhúskjallarinn er sígildur og einnig Juliushospital.
Allir þessir staðir eiga það sameiginlegt að verðlag er sanngjarnt.
Jólamarkaðurinn
Þeir eru orðnir þó nokkrir Íslendingarnir sem hafa notið þess að heimsækja jólamarkaðinn í Würzburg. Það ríkir skemmtileg jólastemming á aðaltorginu við Marienkapelle þar sem fallega skreyttir viðarbásar klæða torgið og eftir því sem líður á daginn fjölgar fólkinu. Þjóðverjarnir sjálfir og aðrir gestir safnast gjarnan saman fyrir framan básana þar sem hægt er að kaupa sér bolla með heita jólavíninu Glühwein og gæða sér á Lebkuchen með. Ekki amalegt í kuldanum. Svo ekki sé minnst á "Würst-pylsurnar" af öllum stærðum og gerðum sem hægt er að fá þegar hungrið sverfur að mönnum....
Í sölubásunum kennir margra grasa. Þar er hægt að fá ýmsar handunnar jólavörur, kerti, skartgripi, jólaskraut, leirvörur og ýmislegt matarkyns sem tilheyrir jólunum s.s. jólabrauðið Stollen og önnur ávaxtabrauð, Lebkuchen o.fl.