Ferðalangur fékk sérlega skemmtilegan pistli frá íslenskri konu um ferð stórrar fjölskyldu til Króatíu og var góðfúslega veitt leyfi til að birta ferðasöguna ef vera kynni að hún gæti gagnast fleirum sem e.t.v. hyggja á ferð til Króatíu í framtíðinni.
Við vorum 7 fullorðin og 6 börn ( við hjónin, börnin okkar, tengdabörn og barnabörn). Við höfum farið nokkrar ferðir til útlanda öll saman og alltaf tekið hús á leigu, m.a. við Gardavatn, í Toscana og á Cape Cod, allt hafa þetta verið frábærar ferðir en við vorum sammála um að Króatíuferðin væri sennilega sú albesta.
Áfangastaðurinn í Króatíu var stórt hús með fínum garði og sundlaug í pínulitlu miðaldaþorpi, Tinjan, á miðjum Istriaskaganum.
Hluti fjölskyldunnar flaug út 2. júní, til München, þar sem teknir voru tveir stórir bílaleigubílar og ekið suður Austurríki með einni gistinótt í ágætri bændagistingu og síðan suður Slóveníu. Þar var að sjálfsögðu stoppað í Bled. Hinn hluti fjölskyldunnar flaug til Pula í Króatíu 3. júní, með millilendingu í Osló. Það er nefnilega regla í fjölskyldunni að við fljúgum aldrei öll saman í sömu vél (gamla konan ég fæ að ráða því!).