Orð eins og "glæsileiki" og "íburður" koma auðveldlega upp í hugann þegar smáríkið Mónakó er nefnt á nafn. Svo ekki sé minnst á Grand Prix og Formula 1…
Fyrir venjulegan launþega norðan úr Atlantshafi er heimsókn til skattaparadísarinnar Mónakó eins og að fá innsýn inn í allt annan heim þar sem venjuleg mánaðarlaun á Íslandi myndu trúlega duga skammt til framfærslu á þessum slóðum.
Það er einstaklega gaman að koma til þessa smáríkis, þar sem hver einasti fermetri er nýttur til hins ýtrasta, enda furstadæmið allt einungis tveir ferkílómetrar að stærð. Hvar annars staðar í heiminum er fótbolti leikinn á fótboltavelli á 3. hæð? Og hvar annars staðar þarf fjölskyldan að hafa búið á staðnum í fjórar kynslóðir til að fá ríkisborgararétt í landinu? Nú - svo má auðvitað kaupa hann dýrum dómum ef svo ber undir.