Stollen, Lebkuchen, Schneeballen... að ekki sé minnst á Glühwein og Würst. Allt þetta virkar sem segull á íslenskan ferðalang á jólamarkaðinum Reiterlesmarkt í Rothenburg.
Myndir frá Rothenburg og jólamarkaði
Það er eins og komið sé inn í ævintýraheim að heimsækja þetta 11.000 manna þorp í jólamánuðinum. Frost og stillur, leifar af snjósköflum eftir síðasta kuldakast, fallega skreyttar götur og jólamarkaðurinn með sínum heimilislegu viðarbásum, vendilega prýddum.
Á markaðaninum skiptast á básar með alls konar jólaskrauti og jólavörum í bland við aðra þar sem hægt er að kaupa bolla af heita jólavíninu Glühwein og pylsur af ýmsum stærðum og gerðum, sumar svo langar að Íslendingurinn horfir hlægjandi á og veltir fyrir sér hvernig í veröldinni sé hægt að torga þessu. Með jólapúnsið í hendi læðist að ferðalanginum sá grunur að í það hafi verið blandað einhverju sterkara en einungis rauðvíni...